O. Henry

O. Henry hét réttu nafni William Sidney Porter. Hann er af mörgum talinn einn fremsti smásagnahöfundur bandarískra bókmennta.

William Sidney Porter fæddist í Greensboro í Karólínufylki þann 11. september 1862. Faðir hans, Algernon Sidney Porter, var læknir og móðir hans, Mary Jane Virginia Swain, var útskrifuð úr kvennaháskóla. Þegar William var þriggja ára lést móðir hans og eftir það leiddist faðir hans út í ofdrykkju. William ólst því upp á heimili frænku sinnar, kennara að nafni Evalina Porter. Hún kom drengnum til mennta og studdi við áhuga hans á listum, bókmenntum og skrifum. Við 15 ára aldur gerðist Porter lærlingur hjá frænda sínum, en hann rak apótek þar sem einnig var selt gos, áfengi og dagblöð. Pilturinn hafði gaman af því að teikna skrípamyndir af viðskiptavinum og skemmta þeim með sögum eftir hann sjálfan. Árið 1881 varð hann löggildur lyfsali.

Porter þáði svo boð fjölskylduvinar um að heimsækja búgarða í Texas og svo fór að hann settist að á einum búgarðinum. Þar hélt hann áfram að skrifa og teikna skrípamyndir. Hann flutti svo til Austin og vann þar sem lyfsali, bókhaldari, afgreiðslumaður og teiknari. Árið 1887 giftist hann hinni 17 ára gömlu Athol Estes í óþökk foreldra hennar, en þau vildu ekki samþykkja ráðahaginn vegna þess að brúðhjónin ungu voru bæði berklaveik.

Tímabilið milli 1887 og 1891 var það hamingjuríkasta í lífi Porters. Hann leigði litla íbúð ásamt eiginkonu sinni og þau fóru að íhuga barneignir. Með stuðningi eiginkonunnar hóf Porter að skrifa sögur til birtingar í dagblöðum. Athol var líklega fyrirmyndin að Dellu í sögunni ,,The Gift of the Magi'' sem er hans þekktasta verk. En hamingjan reyndist verða skammlíf. Fyrsti sonur þeirra hjóna lést stuttu eftir fæðingu og fæðing dóttur þeirra árið á eftir varð Athol næstum að aldurtila. Porter missti einnig vinnuna árið 1891 og réði sig þá sem gjaldkeri og bókhaldari.

Árið 1894 sagði hann starfi sínu í bankanum lausu og hóf útgáfu grínblaðsins The Rolling Stone sem kom út vikulega. Þar birti hann teikningar sínar og sögur. Rekstur blaðsins gekk ekki og þá gerðist Porter blaðamaður, dálkahöfundur og teiknari hjá Houston Post. Til að drýgja tekjurnar vann hann einnig sem gjaldkeri í banka. Árið 1896 var hann ásakaður um að hafa stolið um 5000 dollurum frá bankanum. Hann hélt fram sakleysi sínu og samstarfsmenn hans studdu hann. Sönnunargögn reyndust heldur ekki nægileg til að dæma hann sekan. Hann flýði þó til Hondúras í Mið-Ameríku og fór þar í felur. Þar kynntist hann útlaganum Al Jennings, sem einnig hafði flúið frá Bandaríkjunum, og fleirum. Margir þessara nýju kunningja áttu eftir að koma fyrir í sögum hans seinna meir. Jennings skrifaði síðar um Porter í Through the Shadows with O. Henry (1921).

Eftir ársdvöl í Mið-Ameríku frétti Porter að eiginkona hans væri að dauða komin. Hann sneri þá aftur til Bandaríkjanna og var hjá henni þar til hún lést árið 1897. Svo gaf hann sig fram við yfirvöld og var dæmdur, í umdeildum réttarhöldum, til fimm ára fangavistar í Ohio.

Meðan á fangelsisdvölinni stóð (frá apríl 1898 til júlí 1901) starfaði Porter sem lyfsali á sjúkrahúsi fangelsisins. Hann hóf einnig að skrifa af alvöru í þeirri von að geta séð fyrir ungri dóttur sinni. Þar sem hann vildi ekki að lesendur vissu að hann sæti í fangelsi skrifaði hann undir dulnefninu O. Henry. Fyrsta sagan sem birtist undir því höfundarnafni var ,,Whistling Dick's Christmas Stocking'' sem birtist í McClure's Magazine árið 1899.

Porter fékk að minnsta kosti 12 sögur birtar undir dulnefninu á þessu tímabili. Persónurnar í þessum sögum, sem og fleirum sem hann skrifaði síðar, voru byggðar á öðrum föngum sem hann hitti eða heyrði um í fangelsinu. Hinn frægasti var Jimmy Connors, sem er fyrirmyndin að Jimmy Valentine í sögunni ,,A Retrieved Reformation,'' en hún varð ein af vinsælustu sögum Porters og leikrit var seinna gert eftir henni. Hann skrifaði einnig sögur byggðar á reynslu hans í Texas.

Eftir þriggja ára fangavist var Porter látinn laus fyrir góða hegðun. Hann dvaldi um skamman tíma hjá dóttur sinni og tengdafjölskyldu, en þáði svo starf við skriftir við tímaritið Ainslee's í New York, en það tímarit hafði birt nokkrar sögur eftir hann meðan hann sat í fangelsi. Porter hélt áfram að skrifa undir dulnefninu O. Henry og skrifaði að jafnaði eina sögu á viku. Hann fékk verk sín birt í nokkrum stórum tímaritum og margir töldu hann besta smásagnahöfund Bandaríkjanna. Nokkrar af þekktustu sögum hans, þar á meðal ,,The Gift of the Magi'' og ,,The Last Leaf,'' gerast í New York-borg.

Sögur Porters sköpuðu honum orðspor sem frábærlega snjall rithöfundur. Hann náði einstaklega vel að fanga bæði fegurð og ljótleika lífsins í New York-borg. Að auki var hann þekktur sem geðþekkur og vingjarnlegur maður. Vinsældir hans jukust smám saman og margir lesendur biðu óþreyjufullir eftir hverri nýrri sögu. Porter gaf einnig út smásagnasöfn eins og Cabbages and Kings (1904), þar sem umfjöllunarefnið er uppreisn og ævintýri í Rómönsku Ameríku.

Þrátt fyrir velgengnina og annað hjónaband árið 1907 sólundaði Porter fjármunum sínum og leiddist út í ofdrykkju. Síðari eiginkona hans fór frá honum árið 1909. Undir það síðasta var hann kominn með lifrarbólgu og hundeltur af skuldunautum, og lést loks árið 1910.